Innlent

Ekki einróma álit um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfis

Starfshópur um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins hefur fundað stíft undanfarna daga og er búinn að leggja drög að skýrslu til ráðherra. Fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslustöðva taka nú þátt í starfi hópsins á ný.

Guðbjartur Hannesson, formaður hópsins, segir að rammi sé kominn að heildarskýrslu hópsins. Nú sé verið að vinna betri útfærslu á ákveðnum hugmyndum og ekki náist að skila skýrslu í júlí, eins og að var stefnt. Líklegra sé að vinnu hópsins ljúki um eða eftir miðjan ágúst.

Guðbjartur segir að þrír þættir séu til skoðunar; auðlindirnar í stjórnarskránni, einstakir þættir núverandi kerfis og úthlutun aflaheimilda. Nefndin muni skila tillögum varðandi stjórnarskrána til stjórnlaganefndar og stjórnlagaþing muni fjalla um þær. Áfram er unnið út frá aflahlutdeildarkerfi.

„Úthlutun aflaheimilda er stærsta málið og við höfum skoðað ýmsar hugmyndir. Tvær þeirra lifa og verið er að útfæra þær betur svo þær séu tækar í skýrslu hópsins.“

Ólíklegt verður að teljast að samhljóða álit náist á milli allra aðila, en Guðbjartur á von á að samkomulag náist um meginsjónarmið. Hann segist ekki geta svarað því hvort farið verði eftir fyrningarleiðinni á kjörtímabilinu, líkt og gert er ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum.

Hópurinn skilar tillögum sínum til sjávarútvegsráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×