Fótbolti

Jonuz: Munum pressa á Íslendinga frá fyrstu mínútu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson vann sinn eina leik í undankeppninni til þessa gegn Makedóníu.
Ólafur Jóhannesson vann sinn eina leik í undankeppninni til þessa gegn Makedóníu. Mynd/Stefán

Mirsad Jonuz tók við landsliði Makedóníu um miðjan maí og stýrði því liðinu ekki gegn Íslandi í Reykjavík í fyrri leik liðanna í undankeppninni. Jonuz telur sig þó vita vel hvernig íslenska liðið spili og vonast til þess að finna réttu blönduna til þess að brjóta á bak skipulagðan varnarleik mótherjanna og útskýrði áherslur sínar á blaðamannafundi í gær.

„Íslendingar hafa sinn leikstíl og eru ekki eins og Norðmenn, en þeir eru heldur ekki eins og Andorra. Þeir hafa sinn styrk og líka sína veikleika. Ég hef annars engan áhuga á því að vita hvaða leikmenn spila leikinn fyrir þá. Ég einbeiti mér bara að mínu liði.

Til þess að brjóta á bak skipulagðan varnarleik íslenska liðsins þurfa bakverðirnir okkar hins vegar að vera sókndjarfir og duglegir í hlaupum sínum upp kantana. Annars gætum við lent í vandræðum með að opna þá," segir landsliðsþjálfarinn Jonuz sem boðar einnig breytingar á miðju og sóknarspili Makedóna fyrir leikinn í dag.

„Við spiluðum með tvo varnarsinnaða miðjumenn gegn Noregi en við skiptum þeim út fyrir sókndjarfari leikmenn. Goran Pandev mun svo byrja á vinstri kantinum, Aco Stojkov á hægri kantinum og Ilčo Naumoski á toppnum en þremeningarnir munu skipta mikið um stöður. Með því að spila sóknarbolta og pressa frá fyrstu mínútu er ég viss um að við náum að opna þá. Vonandi náum við að skora á fyrstu tuttugu mínútunum, þá verður allt miklu auðveldara fyrir okkur," segir Jonuz.

Ísland og Makedónía eru jöfn með fjögur stig í þriðja til fjórða sæti 9. riðils en Makedónía á einn leik til góða á Ísland. Hollendingar eru þegar búnir að tryggja sig á lokakeppnina en Skotar eru í öðru sæti með sjö stig og eiga einnig leik til góða. Norðmenn eru á botni riðilsins með þrjú stig og eiga tvo leiki til góða.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×