Fótbolti

Carew: Við höfum engu að tapa gegn Hollandi

Ómar Þorgeirsson skrifar
John Carew.
John Carew. Nordic photos/Getty images

Framherjinn John Carew hvetur liðsfélaga sína í norska landsliðinu til að gleyma um stund stöðu liðsins, sem er á botni 9. riðils undankeppni HM 2010, fyrir leikinn gegn Hollendingum á De Kuip-leikvanginum í kvöld og spila án pressu.

„Við eigum að nálgast leikinn eins og að við höfum engu að tapa. Sem er raunin. Við erum að mæta einu besta landsliði heims og við eigum að tapa okkur í andrúmsloftinu á vellinum og njóta þess að spila gegn svona sterkum andstæðingi," segir framherji Aston Villa í samtali við TV 2 í Noregi.

Norðmönnum hefur gengið afar illa í riðlinum til þessa og eru eina liðið sem hefur enn ekki unnið leik en liðið hefur gert þrjú jafntefli gegn Íslandi, Skotlandi og Makedóníu og tapað gegn Hollandi.

Slakt gengi liðsins varð til þess að landsliðsþjálfarinn Åge Hareide sagði starfi sínu lausu og gullkálfurinn Egil „Drillo" Olsen var fenginn til þess að bjarga liðinu. Fyrsti leikur hans með liðið í undankeppninni var um síðustu helgi þegar liðið gerði 0-0 jafntefli við Makedóníu í Skopje.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×