Fótbolti

Kínverjar náðu jafntefli gegn Þjóðverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kínverjar fagna marki sínu.
Kínverjar fagna marki sínu. Mynd/AFP

Kínverjar náðu 1-1 jafntefli á móti Þjóðverjum í vináttulandsleik í dag en nokkra lykilmenn vantaði þó í þýska liðið. Þetta var fyrsti leikur kínverska landsliðsins undir stjórn þjálfarans Gao Hongbo.

Gao Junmin kom Kínverjum yfir eftir aðeins fjögurra mínútna leik en Þjóðverjar jöfnuðu aðeins tveimur mínútum síðar þegar Lukas Podolski skoraði eftir sendingu frá Bastian Schweinsteiger.

Þjóðverjar léku án Michael Ballack og Miroslav Klose í þessum leik og þjálfarinn Joachim Loew gaf nýjum mönnum tækifæri.

„Við ætluðum að fylgja leikskipulaginu, leggja okkur fram og byggja upp sjálfstraustið í liðinu okkar. Við komum í þennan leik til þess að læra af Þjóðverjunum," sagði markaskorari Kínverja Gao Junmin.

Kínverjar duttu aftur á völlinn og gáfu þýska liðinu fá færi á sér. Kínverjar voru líka alltaf hættulegir í skyndisóknunum og stóðu sig vel í þessum leik.

Hinn 44 ára Gao Hongbo er sjöundi landsliðsþjálfari Kínverja frá árinu 200o og sá yngsti. Hann tekur við liðinu sem hefur verið í frjálsu falli niður Styrkleikalista FIFA og voru síðast í 97.sæti eða næsta sæti á eftir íslenska landsliðinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×