Enski boltinn

Mowbray ætlar beint upp aftur

NordicPhotos/GettyImages

Tony Mowbray, knattspyrnustjóri West Brom, ætlar liði sínu að vinna sér strax aftur sæti í ensku úrvalsdeildinni næsta vor. Lið hans féll úr úrvalsdeildinni í dag eftir 2-0 tap fyrir Liverpool á heimavelli.

West Brom virtist dauðadæmt til að falla strax í haust, en náði að rétta aðeins úr kútnum á lokasprettinum. Lið Mowbray hefur oftar en ekki reynt að spila skemmtilega knattspyrnu en varnarleikurinn var kannski ástæða þess að liðið náði ekki að halda sér í deildinni.

"Fólk fær eitthvað fyrir peningana sína hérna í hverri viku og stuðningsmennirnir hafa verið frábærir. Maður verður að taka ofan fyrir þeim fyrir að fylgja liðinu upp og niður um deildir. Vonandi náum við að launa þeim hollustuna með því að koma liðinu beint upp aftur. Við höfum lært af reynslunni í úrvalsdeildinni í vetur og vonandi náum við að styrkja liðið og halda áfram að berjast um sæti meðal þeirra bestu," sagði Mowbray.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×