Enski boltinn

Moyes neitar sögusögnum um Celtic - Vill vera áfram hjá Everton

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Moyes
David Moyes Mynd/NordicphotosGetty

David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, hefur þverneitað sögusögnum þess efnis að hann sé líklegur til að taka við stjórastöðunni hjá Glasgow Celtic, en Gordon Strachan hætti sem kunnugt er hjá skoska félaginu á dögunum.

"Það má vel vera að Everton hafi borist fyrirspurn frá Celtic um að fá að tala við mig en mér kemur það í raun og veru ekkert við," segir hinn skoski Moyes í samtali við Sky Sports fréttastofuna en hann lék á árunum 1980-1983 með Celtic.

Moyes hefur stýrt Everton frá árinu 2002 og var nýverið kjörinn knattspyrnustjóri ársins á Englandi af samtökum knattspyrnustjóra í úrvalsdeildinni en félagið endaði í fimmta sæti í deildinni og komst í úrslit FA-bikarsins. Moyes hefur hins vegar mikinn metnað til þess að brjóta Everton aftur leið inn á topp fjögur í deildinni en liðinu tókst það síðast tímabilið 2004-2005. Til þess að það takist telur hann að Everton þurfi að keppast um stærstu bitana á leikmannamarkaðnum.

"Peningarnir eru að ég tel engin fyrirstaða hjá okkur eins og stendur og það er í raun engin ástæða fyrir því að Everton ætti ekki að vera að keppast um að fá bestu leikmennina á leikmannamarkaðnum og það er það sem við þurfum að gera til þess að komast inn á topp fjögur í deildinni," segir Moyes ákveðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×