Enski boltinn

Frank Lampard: Þetta var sætur sigur

Frank Lampard og John Terry lyfta hér Samfélagsskildinum.
Frank Lampard og John Terry lyfta hér Samfélagsskildinum. Mynd/AFP

„Þetta var sætur sigur. Það er mjög góð tilfinning að byrja tímabilið á að vinna titil," sagði Chelsea-maðurinn Frank Lampard sem skoraði bæði í leiknum og vítakeppninni þegar Chelsea tryggði sér sigur á móti Manchester United í leiknum um Samfélagsskjöldinn á Wembley í dag.

„Við hefðum getað látið jöfnunarmarkið draga okkur niður en við héldum haus," sagði Lampard en Wayne Rooney tryggði Manchester United vítakeppni með marki í uppbótartíma. Chelsea lét það ekki á sig fá, skoraði úr öllum fjórum vítaspyrnum sínum og vann vítakeppnina 4-1.

Mark Lampard í leiknum sjálfum var nokkuð umdeilt því hann skoraði markið á meðan United-maðurinn Patrice Evra lá meiddur í grasinu eftir hörð viðskipti við Michael Ballack.

„Menn ættu bara að skoða reglurnar. Það er dómarinn sem stoppar leikinn. Við héldum áfram og ég er viss um að United-mennirnir hefðu gert eins í sömu stöðu," sagði Lampard.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×