Innlent

Eva mun lítið nýtast við rannsókn á bankahruninu

Sigríður Mogensen skrifar

Eva Joly hefur einungis setið tvo fundi með embætti sérstaks saksóknara og mun væntanlega lítið nýtast við beina rannsókn og saksókn á bankahruninu.

Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður gagnrýndi ráðningu Joly harðlega í grein í Morgunblaðinu í morgun.

Fleiri lögfræðingar tóku undir orð Brynjars í samtali við fréttastofu í dag, svo sem Sigurður Líndal og Björg Thorarensen, um að yfirlýsingar sem þessar, séu óheppilegar á meðan mál eru í rannsókn. Sigurður Líndal, lagaprófessor, sagði meðal annars að ekki væri útilokað að málið eyðileggist vegna yfirlýsinga hennar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu úr embættismannakerfinu hefur Eva Joly einungis setið tvo fundi með embætti sérstaks saksóknara en samningur hennar tók formlega gildi 1. apríl. Þá er hún ekki komin með nein málsgögn í hendurnar sem varðar rannsóknina eða einstök atriði hennar.

Heimildamaður fréttastofu sagði að hún myndi væntanlega lítið nýtast við rannsóknina sem slíka. Ráðningasamningur hennar lýtur einungis að almennri ráðgjöf, fyrst og fremst aðstoð við gerð réttarbeiðna og samskipti við erlenda aðila. Hún hefur ekki, og mun væntanlega ekki koma beint að rannsókn einstakra mála. Sami heimildamaður segir að yfirlýsingar Evu Joly geri það að verkum að hún muni ekki getað starfað að rannsókninni með beinum hætti.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði í samtali við fréttastofu að Eva Joly sé ráðgjafi við embættið. Samkvæmt samingi eigi hún að leiðbeina um gagnkvæma réttaraðstoð erlendis, benda á sérfræðinga erlendis og gera tillögur um samhæfingu rannsóknarþátta. Innan þessa ramma sé ekki gert ráð fyrir að hún fjalli um einstök mál.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, sagðist í samtali við fréttastofu ekki geta tjáð sig um störf embættis sérstaks saksóknara og vildi því ekki svara þeirri gagnrýni sem fréttamaður bar undir hana um störf Evu Joly.

Þegar ráðning Evu Joly var kynnt kom fram að kostnaður við störf hennar og fylgdarsveina gæti numið allt að 70 milljónum króna á ársgrundvelli, til samanburðar má nefna að heildarframlög til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra nema um 120 milljónum. Samningurinn við Joly gerir ráð fyrir að hún starfi við rannsóknina fjóra daga í mánuði. Eva Joly mun vera væntanleg til landsins á næstu dögum til þess að kynna sér stöðu mála.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.