Enski boltinn

Tevez: Undanúrslitaleikirnir gegn United verða klassískir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez fagnar marki sínu með Manchester City í gær.
Carlos Tevez fagnar marki sínu með Manchester City í gær. Mynd/AFP
Carlos Tevez, framherji Manchester City og fyrrum framherji Manchester United, er mjög spenntur fyrir undanúrslitaleikjum Manchester-liðanna í enska deildarbikarnum en þau drógust saman í gær.

„Þetta verða klassískir leikir," sagði Tevez við Press Association Sport. „Stuðningsmenn Manchester City vilja að við vinnum og það verður mikilvægt fyrir okkur að vera tilbúnir. Þetta er líka auðvitað mjög sérstakur leikur fyrir mig," sagði Tevez sem lék i tvö tímabil með United en kom til City í sumar.

Tevez skoraði sitt fimmta mark á tímabilinu í 3-0 sigri á Arsenal í átta liða úrslitum enska deildarbikarsins í gær. „Ég vil alltaf spila sama í hvaða keppni við erum að spila. Þetta var gott mark og það ætti að gefa mér sjálfstraust. Þetta var mikilvægur sigur fyrir bæði mig og klúbbinn," bætti Argentínumaðurinn við.

Manchester City mætir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um helgina. „Þetta verður erfiður leikur ekki síst þar sem við fáum aðeins tvo daga til þess að hvíla okkur. Ég er samt viss um að við verðum tilbúnir og ég ætla að reyna að skora aftur," sagði Tevez






Fleiri fréttir

Sjá meira


×