Sport

Stjörnur HM teknar að hætti Audda Blö

Sindri Sverrisson skrifar
Luke Humphries var alls ekki táningur þegar hann vann heimsmeistaratitilinn 2024. Það var nafni hans, Luke Littler, sem vann í fyrra.
Luke Humphries var alls ekki táningur þegar hann vann heimsmeistaratitilinn 2024. Það var nafni hans, Luke Littler, sem vann í fyrra. Skjáskot/Youtube

HM í pílukasti er hafið en fyrir mótið voru margar af stærstu stjörnunum teknar og gabbaðar illa. Menn gátu þó hlegið að því eftir á.

Emma Paton og Mark Webster eru vön að lýsa og fjalla um pílukast en í þetta sinn voru þau á bakvið tjöldin, í anda Ashton Kutcher og Auðuns Blöndal, og fengu leikara til að þykjast vera bandarískur fjölmiðlamaður að taka viðtöl við stjörnurnar. Þau töluðu svo í eyra leikarans.

Paton og Webster fengu leikarann til að spyrja alls konar óviðeigandi og heimskulegra spurninga, og láta eins og hann þekkti engan af mönnunum. Úr varð fullt af vandræðalegum og fyndnum augnablikum sem sjá má í myndbandinu hér að neðan. 

Menn virtust þó hafa misgaman af hrekknum en sjón er sögu ríkari.

Eins og fyrr segir þá hófst HM í kvöld en nú eru í fyrsta sinn 128 þátttakendur, í stað 96 áður, og spila allar stærstu stjörnurnar með frá fyrstu umferð. 

Mótinu lýkur 3. janúar þegar heimsmeistarinn verður krýndur.

HM í pílukasti er í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay. Á morgun, föstudag, hefst útsending klukkan 12:25 og svo aftur klukkan 18:55.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×