Enski boltinn

Makelele: Terry sá til þess að Mourinho var rekinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Claude Makelele, fagnar með John Terry og Frank Lampard.
Claude Makelele, fagnar með John Terry og Frank Lampard. Mynd/AFP

Claude Makelele, fyrrum leikmaður Chelsea, segir að rifildi milli John Terry og Jose Mourinho hafi verið aðalástæðan fyrir því að portúgalski stjórinn var rekinn frá félaginu. Rifildið snérist um form fyrirliðans sem Mourinho var ekki sáttur með.

Claude Makelele segir frá þessu í nýrri bók, Claude Makelele - Tout Simplement, sem hann gaf út í morgun. Þar heldur hann því fram að Roman Abramovich hafi þurft að velja á milli stjórans og fyrirliðans og að hann hafi valið fyrirliðann. Makelele er nú leikmaður franska liðsins Paris St. Germain.

Makelele segir að Jose Mourinho hafi ætlað að hvíla John Terry á bekknum í nokkra leiki á meðan Terry var að ná sér að bakmeiðslum. Mourinho ætlaði að spila þeim Ricardo Carvalho og Alex í miðri vörninni og það var John Terry allt annað en sáttur við.

„Ég fékk fréttirnir frá Didier Drogba. Hann sagði mér að Mourinho yrði rekinn á morgun. Ég var þvílíkt hissa því ég hélt að Mourinho væri ósnertanlegur," segir Makelele í bók sinni.

„Ég hitti sjúkraþjálfarann þegar ég kom á æfingu og hann sagði mér að sögusagnirnar væru sannar og það væri búið að reka Mourinho. Ég spurði hann af hverju og hann sagði mér að margir leikmenn hefðu kvartað undan honum og þá sérstaklega John Terry," sagði Makelele í bókinni sinni.

Makelele heldur því líka fram að Jose Mourinho hafi verið búinn að fá nóg af yfirgangi Roman Abramovich og að það hafi verið hans leið út að taka út eina ósnertanlega leikmann liðsins, nefnilega John Terry.

Chelsea og John Terry hafa fordæmt þessar ásakanir en liðið mætir Everton í dag í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar og þar gæti John Terry tekið við bikarnum í leikslok.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×