Fótbolti

Ólafur mun kalla inn nýja menn í landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari. Mynd/Stefán
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari mun kalla á nýja leikmenn í íslenska landsliðshópinn í stað þeirra sem munu missa af leiknum gegn Makedóníu á miðvikudaginn vegna leikbanna og meiðsla. Ísland tapaði fyrir Hollandi í dag, 2-1.

Indriði Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson og Hermann Hreiðarsson fengu allir áminningar í kvöld en þeir voru þegar búnir að fá gult spjald fyrr í keppninni. Þeir verða því í banni á miðvikudaginn.

„Það er líka mjög tvísýnt með þá Eið Smára og Stefán Gíslason," sagði Ólafur eftir leikinn í kvöld. „Þeir eiga við meiðsli að stríða. Það eru smá „hnjösk" hér og þar."

Hann mun kalla nýja leikmenn í hópinn í stað þeirra sem detta út. „En það er eitthvað sem ég þarf að skoða á morgun. Ég get ekki hugsað um þau mál akkurat þessa stundina."

Hann segir að liðið muni fara þrátt fyrir allt að fullum krafti í leikinn gegn Makedóníu ytra, þrátt fyrir forföll og þá staðreynd að Ísland á litla sem enga möguleika á sæti á HM.

„Ekki spurning. Við förum þangað til að ná í þrjú stig. Kristján (Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur) er út í Makedóníu og við fáum skýrslu frá honum á morgun," sagði Ólafur en Makedónar gerðu markalaust jafntefli við Norðmenn í dag.

Um leikinn í dag sagði hann menn skiljanlega hafa verið nokkuð svekkta í hálfleik. Holland skoraði tvö mörk á fyrsta stundarfjórðungnum og fékk mýgrút tækifæra til að bæta fleiri mörkum við fyrir leikhlé.

„Við sáum að við þurftum að gera eitthvað. Ég held að menn hafi svarað því ágætlega. Við settum varnarsinnaðri miðjumann inn á í hálfleik og vorum agaðri í að halda okkar svæðum. Það gekk öllu betur og seinni hálfleikurinn var fínn að okkar hálfu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×