Enski boltinn

Mark Hughes: Bjóst ekki við að Frank myndi klikka á vítinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shay Given sést hér verja vítaspyrnuna frá Frank Lampard.
Shay Given sést hér verja vítaspyrnuna frá Frank Lampard. Mynd/AFP

Mark Hughes, stjóri Manchester City, hjálpaði gamla læriföður sínum Alex Ferguson í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar með því að stýra City-liðinu til 2-1 sigurs á toppliði Chelsea í kvöld.

„Stundum gerast óvæntir hlutir og ég bjóst ekki við að Frank myndi klikka á vítinu. Maður verður þó að vera sanngjarn því það var mikil pressa á honum í þessu víti," sagði Hughes um vítaspyrnuna þar sem Frank Lampard gat jafnað leikinn. Shay Given varði hinsvegar vítið og tryggði City öll þrjú stigin.

„Við urðum að sýna hugrekki og atorku í þessum leik. Þegar þú mætir liði eins og Chelsea þá verður þú að trúa á þína eigin styrkleika. Sum lið bera of mikla virðingu fyrir þeim sem gefur þeim færi á að komast í færi og vinna leiki," sagði Hughes.

Manchester City er nú búið að ná í sjö stig á móti stóru liðunum á þessu tímabili, eftir að hafa unnið Chelsea og Arsenal og gert jafntefli við Liverpool.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×