Innlent

Samfélagið þarf að senda kynferðisbrotamönnum ákveðin skilaboð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Thelma Ásdísardóttir vill ákærur yfir mönnunum sem höfðu kynferðislegt samneyti við konuna að undirlagi sambýlismanns hennar. Mynd/ Vilhelm.
Thelma Ásdísardóttir vill ákærur yfir mönnunum sem höfðu kynferðislegt samneyti við konuna að undirlagi sambýlismanns hennar. Mynd/ Vilhelm.
„Mér finnst jákvætt hvað dómurinn er þó langur. Það er kannski ekki að maður sé að gleðjast yfir þungri refsingu í fangelsi, mér finnst það svo kannski annað mál, en mér finnst mikilvægt að samfélagið gefi skilaboð til ofbeldismanna að svona sé ekki liðið," segir Thelma Ásdísardóttir um dóm yfir manni sem var dæmdur fyrir margvíslegt ofbeldi, líkamlegt og kynferðislegt, gagnvart sambýliskonu sinni. Maðurinn var dæmdur í átta ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Thelma segist ekki þekkja umrætt mál en af lýsingum í fjölmiðlum að dæma hafi maðurinn fengið aðra karlmenn til að taka þátt í ofbeldinu með sér. „Mér finnst athyglisvert að ellefu manns skuli ganga lausir sem virðast hafa nauðgað henni," segir Thelma. Hún bendir þó á að allir séu saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð en hún hefði viljað sjá ákærur gagnvart þeim.

„Mér finnst líka sterkt í þessu máli hvað það kemur ofsalega skýrt fram hvað kynferðislegt ofbeldi er auðveldlega hluti af ofbeldi í parasamböndum," segir Thelma. „Þannig að þegar karlmaður er að beita konu ofbeldi í parasambandi að þá er kynferðislegt ofbeldi svo oft hluti af því. En það kemur svo sjaldan fram af því að þar er svo oft mesta skömmin og sektarkenndin þar," segir Thelma og bendir á að það sé kannski líka oft erfiðast fyrir konuna að átta sig á því hvar ofbeldið byrji og hvar hún sjálf hefur látið yfir sig ganga hluti. „Nú er ég ekki að segja að hún hafi gert það en konum líður oft þannig," segir Thelma.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×