Enski boltinn

Tottenham missti niður tveggja marka forskot á móti Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jermain Defoe skoraði fyrsta mark Tottenham en klikkaði síðan á víti á úrslitastundu.
Jermain Defoe skoraði fyrsta mark Tottenham en klikkaði síðan á víti á úrslitastundu. Mynd/AFP
Tottenham mistókst að endurheimta þriðja sætið í ensku úrvalsdeildinni í dag eftir 2-2 jafntefli við Everton á Goodison Park. Tottenham komst í 2-0 í upphafi seinni hálfleiks en Everton jafnaði með tveimur mörkum á síðustu tólf mínútum leiksins. Jermain Defoe gat tryggt Tottenham sigurinn í uppbótartíma en lét Tim Howard verja frá sér vítaspyrnu.

Jermain Defoe kom Tottenham í 1-0 á 47. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir flotta fyrirgjöf frá Aaron Lennon.

Michael Dawson skoraði seinna markið á 59. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Niko Kranjcar.

Louis Saha minnkaði muninn fyrir Everton á 78. mínútu eftir laglegan undirbúning varamannsins Seamus Coleman.

Tim Cahill jafnaði síðan leikinn fjórum mínútum fyrir leikslok þegar hann skallaði inn misheppnað skot Leighton Baines úr markteignum.

Tottenham fékk gullið tækifæri til að tryggja sér sigurinn í uppbótartímanum þegar Wilson Palacios var felldur í teignum. Tim Howard varði hinsvegar lélegt víti Jermain Defoe.

Tottenham er því áfram í 4. sæti deildarinnar, stigi á eftir Arsenal og stigi á undan Aston Villa sem er í fimmta sætinu. Everton er í 15. sæti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×