Enski boltinn

Moyes brjálaður út í forráðamenn City

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Moyes.
David Moyes. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn David Moyes hjá Everton hefur enn og aftur látið í ljós óánægju sína með vinnubrögð forráðamanna Manchester City í eltingarleik sínum við varnarmanninn Joleon Lescott hjá Everton.

Moyes sakar City-menn um að reyna að spilla undirbúningi liðs síns fyrir komandi leiktíð með því að neita að taka svörum Everton sem hefur alltaf sagt leikmanninn ekki vera til sölu. Lescott sjálfum var neitað í síðustu viku um að vera settur á sölulista.

„Þetta mál hefur vissulega truflað undirbúning okkar fyrir komandi tímabil og kannski var það tilgangurinn með þessu hjá forráðamönnum City. Við viljum ekki selja Lescott en City heldur alltaf áfram og leikmaðurinn sjálfur hefur því lent í miðjunni í þessu öllu og það er ekki skemmtileg staða fyrir hann.

Ég heyrði annars að Mark Hughes [knattspyrnustjóri City] vildi tala við einhverja sem hefðu valdið yfir því hverjir verði seldir frá Everton og það er ég. Ég hef ekki fengið eitt símtal frá honum eða neinum frá City en ég hef sagt það oft að Lescott er ekki til sölu," segir Moyes reiður í samtali við Sky Sports fréttastofuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×