Enski boltinn

Ancelotti: Gott fyrir tímabilið að nota ungu strákana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea. Mynd/AFP
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, sá ekki eftir því að hafa hvílt lykilmenn liðsins og mætt með hálfgert varalið í leikinn á móti Blackburn í átta liða úrslitum enska deildarbikarsins í gær. Chelsea tapaði 3-4 í vítakeppni og er úr leik.

„Þetta var gott fyrir tímabilið því ég vildi sjá ungu leikmennina okkar spila alvöruleik. Ég tel að þeir hafi staðið sig vel og þetta var mjög gott tækifæri fyrir þá að öðlast meiri reynslu," sagði Carlo Ancelotti.

Joe Cole, Salomon Kalou og Jon Obi Mikel voru þeir einu í byrjunarliðinu í gær sem byrjuðu einnig á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Didier Drogba kom síðan inn á sem varamaður.

„Við erum svekktir með úrslitin en liðið stóð sig mjög vel manni færri. Liðandinn var góður og við gáfum hjartað í leikinn," sagði Ancelotti. Salomon Kalou þurfti að yfirgefa völlinn 20 mínútum fyrir leikslok vegna meiðsla en þá hafi Ítalinn notað alla sína varamenn.

„Ég tók áhættu með að skipta öllum þremur inn á í hálfleik en þetta var nýtt lið hjá okkur og stundum gengur það ekki upp. Seinni hálfleikurinn var betri," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×