Innlent

Engin gögn styðja fullyrðingar ráðamanna

Höskuldur Kári Schram skrifar
Frá blaðamannafundi InDefence-hópsins um miðjan júní.
Frá blaðamannafundi InDefence-hópsins um miðjan júní. Mynd/Arnþór Birkisson
Engin gögn styðja þær fullyrðingar ráðamanna að Íslendingar séu tilneyddir til að fallast á Icesave samkomulagið. Þetta segir Ólafur Elíasson, hjá Indefence hópnum. Hann gagnrýnir stjórnvöld fyrir að verja ekki þjóðina gagnvart yfirgangi Breta og Hollendinga.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á innlánstryggingasjóði vegna Icesave samkomulagsins við Hollendinga og Breta verður lagt fram á Alþingi á næstu dögum.

Allt að 400 milljarðar króna gætu fallið á ríkið vegna samkomulagsins.

Fram kom í máli Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, - í fréttum stöðvar tvö á föstudag - að verði frumvarpið fellt eigi Ísland það á hættu að einangrast á alþjóðlegum vettvangi. Það setji ennfremur fyrirhugaðar lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nágrannaþjóða í uppnám.

Ólafur Elíasson, hjá Indefence hópnum, segir að stjórnvöld þurfi að sýna fram á með sannanlegum hætti að íslendingar verði beitti viðskiptaþvingunum verði ekki fallist á Icesave. Engin opinber gögn styðji málflutning ráðamanna.

„Eru þetta álitsgerðir þjóðþinganna hérna í kringum okkur? Er þetta yfirlýsingar sendiherra þeirra? Eru þetta einhverjar skýrslur sem eru til í okkar ráðuneytum? Um hvaða þvinganir eru menn að tala um? Eigum við ekki að byrja á því að fá það upp á borðið til þess að íslenska þjóðin gæti hugsanlega sætt sig við það að ganga að slíkum afarkostum vegna þess að þvinganirnar eru svo óhugnanlegar? Við krefjumst þess einfaldlega að þessar þvinganir komi upp á borðið," segir Ólafur.

Ólafur segir að stjórnvöld hafi ekki varið þjóðina gagnvart yfirgangi Breta og Hollendinga.

„Hvernig stendur á því að þegar yfirvöld eru að segja okkur Íslendingum að það sé verið að veitast að okkar hagsmunum, Hollendingar og Bretar, nú eru sömu yfirvöld að tala málstað Hollendinga og Breta? Er ekki kominn tími til að þjóðin verji sig gagnvart þessum yfirgangi okkar nágranna?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×