Enski boltinn

Capello: Dyrnar eru ennþá opnar fyrir Owen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen og Sir Alex Ferguson.
Michael Owen og Sir Alex Ferguson. Mynd/AFP

Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, segir að Michael Owen eigi enn möguleika á að spila með landsliðinu á HM þrátt fyrir að hann hafi ekki komist í hópinn fyrir vináttuleikinn á móti Hollandi á miðvikudaginn.

Það bjuggust margir við að góð frammistaða Michael Owen á undirbúningstímabilinu með Manchester United væri nóg til að koma honum aftur inn í landsliðshópinn.

„Það er frábært tækifæri fyrir Owen að spila á nýjan leik með stóru liði og fá líka tækifæri til að spila í Meistaradeildinni. Þetta er annað tækifæri og það er mikilvægt fyrir leikmann. Dyrnar eru ennþá opnar fyrir hann," sagði Capello.

Owen mun örugglega reyna að sýna sig og sanna fyrir landsliðsþjálfaranum í leiknum um Góðgerðaskjöldinn sem er hafinn á Wembley. Capello verður þar í stúkunni.

„Það er mikilvægt fyrir hann að spila með stóru liði. Hann þarf samt að spila vel og skora mörk. Hann þarf að spila eins vel og hann gerði fyrir síðasta tímabil," sagði Capello um Owen.

Capello tók það síðan fram að Owen sé enn bara 29 ára gamall og hann á því nóg eftir til að koma ferli sínum aftur á flug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×