Enski boltinn

Wolves reynir að fá Mancienne frá Chelsea

Ómar Þorgeirsson skrifar
Michael Mancienne í leik með Chelsea.
Michael Mancienne í leik með Chelsea. Nordic photos/AFP

Stjórnarformaðurinn Jez Moxey hjá nýliðum Wolves segir líklegt að félagið reyni að fá varnarmanninn Michael Mancienne aftur að láni frá Chelsea en leikmaðurinn lék í þrjá mánuði með Úlfunum á síðustu leiktíð í b-deildinni á Englandi.

U-21 árs landsliðsmaðurinn þótti reyndar standa sig það vel á meðan hann var á láni hjá Wolves að Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, kallaði hann upp í a-landsiðshópinn fyrir vináttulandsleik gegn Þýskalandi.

Mancienne fékk einhver tækifæri með Chelsea þegar hann sneri aftur úr láninu en náði ekki að festa sig í sessi og nýji knattspyrnustjórinn á Brúnni Carlo Ancelotti er ekki sagður mótfallinn því að senda leikmanninn í árs lán.

Talið er að Wolves hafi þegar boðið 4 milljónir punda í leikmanninn en Chelsea hafi hafnað boðinu.

„Ég held að Chelsea vilji ekki selja leikmanninn á þessum tímapunkti en lánssamningur gæti komið til greina," segir Moxey í samtali við Sky Sports fréttastofuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×