Enski boltinn

Guðjón Þórðarson valinn besti stjóri mánaðarins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Þórðarson er að gera frábæra hluti með Crewe.
Guðjón Þórðarson er að gera frábæra hluti með Crewe. Mynd/Daníel

Guðjón Þórðarson verður valinn besti stjóri febrúarmánaðar í ensku 1. deildinni ef marka má frétt á stuðningsmannasíðu Crewe-liðsins. Greinin er skrifuð af Matt Owen, sem hefur það eftir yfirmanni valnefndarinnar að Guðjón sé þar fyrstur á blaði.

Crewe hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum undir stjórn Guðjóns og eini tapleikurinn var á móti Leyton Orient (0-1) á Valentínusardaginn. Þessi tólf stig hafa komið Crewe upp í 19. sæti og upp úr fallsæti.

Liðið hefur unnið Southend (13. sæti), Huddersfield (10. sæti), Yeovil (18. sæti) og Brighton (22. sæti) en þessi lið voru fyrir ofan Crewe í upphafi mánaðarins.

Guðjón hefur tekið varnarleik Crewe-liðsins í gegn en liðið fékk aðeins tvö mörk á sig í febrúar. Fram að komu Guðjóns var liðið með næstverstu vörnina í deildinni en fyrir leikina í febrúar þá var Crewe búið að fá á sig 59 mörk í aðeins 27 leikjum eða 2,2 mörk að meðaltali í leik.

Það er aðeins lið Southend United sem fékk jafnmörg stig og Crewe í febrúar en Crewe er bæði með betri markatölu en Southend (10-2 á móti 7-3) og vann líka innbyrðisviðureign liðanna 17. febrúar (1-0).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×