Körfubolti

Leik­manni Tinda­stóls var meinaður að­gangur inn í landið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ivan Gavrilovic í leik með Stólunum á tímabilinu. 
Ivan Gavrilovic í leik með Stólunum á tímabilinu.  vísir/Anton

Tindastóll mætir Sigal Prishtina frá Kósóvó í ENBL-deildinni í kvöld. Ivan Gavrilovic verður ekki með liðinu. Stólarnir millilentu í Istanbúl á leið sinni yfir til Kósóvó en þegar fara átti með liðið í gegnum vegabréfaeftirlitið í landinu fékk einn leikmaður liðsins ekki leyfi til að koma inn í landið. Það er Serbinn Ivan Gavrilovic og mun ástæðan vera pólitísk.

Ivan hefur verið frábær með liðinu í Bónus-deild karla og hefur hann gert 17,9 stig að meðaltali í leik og tekið sjö fráköst. 

Kósóvó lýsti yfir einhliða sjálfstæði frá Serbíu 17. febrúar 2008. Meirihluti ríkja heims hefur viðurkennt sjálfstæði Kósóva en Serbar telja landið áfram vera sitt landsvæði. Það andar því köldu á milli Kósóva og Serba. 

Tindastóll er í 8. sæti ENBL-deildarinnar og hefur liðið aðeins tapað einum leik í keppninni til þessa. Leikurinn hefst klukkan 18:00 að íslenskum tíma í kvöld og er sýndur á Tindastóll TV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×