Enski boltinn

Ballack býst við að Ancelotti taki við Chelsea - gerði nýjan samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Ballack vann sinn annan bikarmeistaratitil með Chelsea.
Michael Ballack vann sinn annan bikarmeistaratitil með Chelsea. Mynd/GettyImages

Michael Ballack, þýski landsliðsfyrirliðinn, er búinn að gera nýjan eins árs samning við enska úrvalsdeildarliðið Chelsea. Hann býst við því að Carlo Ancelotti verði næsti stjórinn á Stamford Bridge.

„Ég er ekki búinn að skrifa undir nýjan samning en hef samþykkt að framlengja um eitt ár," sagði Michael Ballack í viðtalið við BBC Sport.

„Það er ekki búið að ganga frá málum Ancelotti en það lítur út fyrir að hann verði næsti stjóri liðsins," sagði Ballack og bætti við. „Ég hef ekki spilað fyrir hann og þekki hann lítið en það fer ekkert framhjá neinum sem hafa fylgst með hans þjálfara feril að þarna er öflugur þjálfari á ferðinni," sagði Ballack.

„Það vilja allir vinna titlana sem þeir hafa ekki unnið. Aðalmarkmið næsta tímabils veðrur eins og áður að vinna enska meistaratitilinn og meistaradeildina," sagði Ballack sem hefur orðið tvisvar sinnum bikarmeistari með Chelsea en enn eftir að vinna annan af stóru titlunum.

„Við þurfum að ná upp meiri stöðugleika hjá Chelsea. Við erum með frábært lið og það þarf ekki að breyta miklu. Við fáum nýjan stjóra og það tekur örugglega tíma fyrir alla að ná saman. Það er nefnilega ekki vanalegt að menn séu eins fljótir og Guus Hiddink að komast inn í hlutina," sagði Ballack.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×