Fótbolti

Mellberg varnarmaður ársins - Ragnar var tilnefndur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. Mynd/Guðmundur Svansson

Landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson hjá Gautaborg varð að lúta í lægra haldi fyrir Olof Mellberg hjá Olympiakos í kjöri á varnarmanni ársins í Svíþjóð en afhendingin fór fram í kvöld.

Ragnar átti frábært tímabil með Gautaborg en hann var einmitt tilnefndur til sömu verðlauna árið 2007 og þá vann Mellberg einnig.

Ásamt þeim Ragnari og Mellberg voru Jos Hooiveld hjá AIK og Daniel Majstorovic einnig tilnefndir til verðlaunanna en allir varnarmenn sem leika í Svíþjóð auk sænskra leikmanna utan Svíþjóðar komu til greina í valinu. Það er því ljóst að tilnefningin sem slík er mikill heiður fyrir Ragnar.

„Ég er mjög stoltur yfir því að vera í þessum hópi sem tilnefndur var og það er engin skömm að tapa fyrir Mellberg í svona kosningu," sagði Ragnar í viðtali við Vísi í kvöld.

Ýmis verðlaun voru veitt í kvöld en það kom verulega á óvart að Ragnar hafi ekki verið tilnefndur fyrir mark ársins en hann skoraði með skoti fyrir aftan miðju í 6-0 sigri Gautaborgar gegn Djurgarden í annarri umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×