Fótbolti

Evrópumeistararnir í vand­ræðum með botnliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Desire Doue skoraði þriðja mark Paris Saint-Germain í leiknum i kvöld.
Desire Doue skoraði þriðja mark Paris Saint-Germain í leiknum i kvöld. Getty/ Xavier Laine

Paris Saint Germain sótti þrjú stig á heimavöll botnliðsins og komst um leið upp í toppsæti frönsku deildarinnar.

PSG vann leikinn á endanum 3-2 eftir að heimamenn í Metz náðu að minnka muninn í eitt mark tíu mínútum fyrir leikslok.

Goncalo Ramos kom PSG í 1-0 á 31. mínútu og Quentin Ndjantou bætti við öðru marki átta mínútum síðar. Jessy Deminguet minnkaði muninn í 2-1 á 42. mínútu.

Désiré Doué kom inn á sem varamaður í hálfleik og kom PSG í 3-1 á 63. mínútu. Það stefndi í öruggan sigur.

Heimamenn gátust ekki upp og Giorgi Tsitaishvili minnkaði muninn í 3-2 á 81. mínútu. Nær komust þeir ekki og Parísarliðið endurheimti toppsætið með því að komast tveimur stigum yfir Lens sem á leik inni.

Metz situr í botnsæti deildarinnar með aðeins þrjá sigra í sextán leikjum og markatöluna 17-37.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×