Innlent

Framsóknarmenn vilja ganga lengra í Icesave fyrirvörum

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Framsóknarmenn vilja kveða fastar að orði í lagalegum fyrirvörum ríkisábyrgðar Icesave samningsins en meirihluti fjárlaganefndar. Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi Framsóknar í fjárlaganefnd, hefur nú lagt fram varabreytingartillögur við fyrirvara fjárlaganefndar verði frávísunartillaga þeirra ekki samþykkt.

Í fyrirvörum sem nefndin hefur lagt fram er gert ráð fyrir því að fáist úr því skorið að ábyrgð á Tryggingasjóði innistæðueigenda hvíli ekki á hinu opinbera geti Ísland gengið til viðræðna um áhrif þeirrar niðurstöðu á lánasamningana við Breta og Hollendinga.

Framsóknarmenn vilja hins vegar að ríkisábyrgðin falli niður fari svo, og beri Tryggingarsjóði innistæðueigenda ekki að greiða hærri fjárhæð en til var í sjóðnum við upphaf bankahrunsins. Hið sama gildi ef Evrópulöggjöfin tekur breytingum eða verði túlkuð Íslendingum í hag, eða ef í ljós komi að skaði hafi hlotist af aðgerðum breskra og hollenskra stjórnvalda fyrir þrotabú Landsbankans.

Þá vilja Framsóknarmenn einnig fella niður ríkisábyrgðina á eftirstöðvum lándsins ef greiðslubyrði samninganna er meiri en nemur ákveðnu hámarki hagvaxtar. þegar þar að kemur Fyrirvarar fjárlaganefndar gera hins vegar ráð fyrir að gengið sé til viðræðna við viðsemjendurna ef greiðslubyrðin verður meiri, en ella takmarkist ríkisábyrgðin við hámarkið.

Framsóknarmenn vilja að auki bæta við nýjum fyrirvara í frumvarpið. Til að fyrirbyggja greiðslufall ríkissjóðs vilja þeir þannig fella ríkisábyrgðina niður ef hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af landsframleiðslu fer yfir 240 prósent, ef hlutfall erlendra skulda opinberar aðila af skatttekjum fer yfir 250 prósent eða ef hlutfall erlendra afborgana og vaxta af útflutningstekjum fer yfir 150 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.