Enski boltinn

Schmeichel: Vidic er lykillinn

Ferdinand og Vidic vinna vel saman í vörn United
Ferdinand og Vidic vinna vel saman í vörn United Nordic Photos/Getty Images

Goðsögnin Peter Schmeichel, sem á árum áður stóð í marki Manchester United, fer fögrum orðum um varnarlínu liðsins í pistli í breska blaðinu Daily Mail í dag.

Daninn hrífst mjög af markverðinu Edwin van der Sar sem haldið hefur marki sínu hreinu í fjórtán deildarleikjum í röð.

"Þegar velja á markvörð í lið Manchester United þarf að svara eftirfarandi spurningum. Er tækni hans nógu góð? Er hann nógu hugaður? Er hann nógu sterkur andlega og er hann nógu skipulagður og með nóg sjálfstraust?" segir Schmeichel.

"Van der Sar hefur allt þetta. Ég spilaði landsleiki á móti honum og ég var alltaf hrifinn af honum. Hann er miklu meira en maður sem getur varið skot. Það geta allir markverðir sem spila á hæsta stigi. Þú verður að hafa meira en það til að spila með Manchester United og það sem ég hrífst mest af er fótavinna hans," sagði Schmeichel.

Hann nefndi þá Van der Sar, David Seaman hjá Arsenal og Neville Southall hjá Everton sem bestu markverði sem hann spilaði á móti á Englandi á sínum tíma.

Það er ekki bara Van der Sar að þakka að vörn United hefur verið óvinnandi vígi að undanförnu og Schmeichel sparar hluta af hrósi sínu fyrir miðverði liðsins - ekki síst Nemanja Vidic.

"Ég verð að segja að Vidic er algjör lykilmaður. Hann er varnarmaður sem hugsar fyrst um einföldu hlutina og hann á stóran þátt í að Rio Ferdinand er orðinn einn af þremur bestu miðvörðum heimsins. Það er líka Vidic að þakka að Johnny Evans lítur út fyrir að hafa spilað í vörn United í 100 ár," sagði Schmeichel.
























Fleiri fréttir

Sjá meira


×