Enski boltinn

Benitez vill ekki óska Ferguson til hamingju með titilinn

Nordic Photos/Getty Images

Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, baðst undan í dag þegar hann fékk tækifæri til að óska kollega sínum Sir Alex Ferguson hjá Manchester United til hamingju með Englandsmeistaratitilinn.

Þeir Benitez og Ferguson hafa eldað grátt silfur í vetur og litlir kærleikar hafa verið á milli þeirra eftir að Benitez hélt staðreyndaræðu sína á blaðamannafundi fyrir nokkru.

Þar lét hann í veðri vaka að United fengi sérmeðferð hjá dómurum á Englandi, en Ferguson sakaði Spánverjann um hroka og vanvirðingu á móti.

Benitez var tilbúinn að hrósa liði Manchester United fyrir góðan leik í vetur í samtali við Sky í dag, en vildi ekkert segja um Alex Ferguson.

"Ég er tilbúinn að óska Manchester United til hamingju. Þeir hafa staðið sig vel, en ég vil ekki segja of mikið. Ég kýs að hrósa bara félaginu. Þetta er stórt félag - gott félag. Venjulega verður maður að vera kurteis og bera virðingu fyrir stjórum hinna félaganna, en ég hef séð mikið af hlutum í vetur sem mér er illa við, svo þetta nær ekki lengra. Ég óska United til hamingju með titilinn af því þeir unnu, en það er allt og sumt," sagði Benitez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×