Enski boltinn

Birmingham búið að ganga frá kaupum á Benitez

Ómar Þorgeirsson skrifar
Christian Benitez.
Christian Benitez. Nordic photos/AFP

Nýliðar Birmingham eru byrjaðir að styrkja sig fyrir komandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni og í dag var endanlega staðfest að framherjinn Christian Benitez muni spila með félaginu.

Til stóð að Benitez kæmi snemma í júní en þá gekk læknisskoðunin ekki sem skildi en nú er allt klappað og klárt en Birmingham borgar 8 milljónir punda fyrir leikmanninn sem kemur frá Santos Laguna í Mexíkó.

Hinn 23 ára gamli Benitez er landsliðsmaður Ekvador og átti ekki í vandræðum með að fá atvinnuleyfi á Englandi enda búinn að leika yfir 85 prósent landsleikja Ekvador undanfarin tvö ár.

„Ég get ekki beðið eftir því að spila með Birmingham og ég mun gefa allt mitt til þess að skora eins mörg mörk og mögulegt er," segir Benitez í viðtali á opinberri heimasíðu Birmingham í dag.

Benitez skoraði 31 mark í 58 leikjum á tveimur árum með Santos Laguna en spurning hvort hann sé tilbúinn fyrir ensku úrvalsdeildina?

Þá eru allar líkur á því að Lee Bowyer komi til Birmingham á frjálsri sölu frá West Ham en miðjumaðurinn var í láni hjá Birmingham á síðustu leiktíð og þótti standa sig vel.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×