Innlent

Komst áfram í keppni um framtíð flugiðnaðarins

Íslenskt lið frá Háskóla Íslands komst í aðra umferð í Fly Your Ideas keppninni sem Airbus efndi til 14. október síðastliðinn. Keppnin snýst um að efla vistvirkni flugvélaiðnaðarins og fá sigurvegararnir 30.000 evrur í verðlaun. Tvö lið frá Norðurlöndunum komust í aðra umferð, en lið frá 130 háskólum í 82 löndum luku fyrstu umferð keppninnar.

Lið Háskóla Íslands skipa þeir Arnar Lárusson, Andrés Gunnarsson og Ásgeir Bjarnason. Hugmynd þeirra er að setja þunnar sólarorkusellur á flugvélar sem framleiða rafmagn fyrir farþegarýmið, það er ljós, loftkælingu, afþreyingarkerfi og fleira. Þannig væri hægt að minnka kolefnisútblástur flugvélanna auk þess sem í þessu fælist mikill sparnaður fyrir flugfélögin. Samkvæmt hugmyndum þeirra fer rafmagn úr sólarorkusellunum beint inn á kerfið þegar aðstæður eru hagstæðar en þegar þær eru óhagstæðar, til dæmis í næturflugi, er hefðbundið kerfi notað. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Í annarri umferð munu liðin þróa tillögur sínar áfram og svo verða fimm bestu liðin valin í þriðju og síðustu umferðina sem endar á kynningu á Le Bourget flugsýningunni í París í júní 2009. Það lið sem kemur með þá tillögu sem talin er hafa mesta möguleika á að verða að veruleika og minnka koltvísýrings útblástur fær 30.000 evrur í verðlaun.

Mikil þátttaka var í Fly Your Ideas keppninni, 2.350 nemendur skráðu sig til þátttöku og 225 lið frá 130 háskólum í 82 löndum luku fyrstu umferð keppninnar. Liðin sem komust áfram í aðra umferð eru 86 talsins. Tvö lið frá Norðurlöndunum komust áfram, eitt lið frá Íslandi og eitt frá Danmörku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×