Fótbolti

Dan Petrescu sækir um landsliðsþjálfarastöðu Skota

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dan Petrescu er að gera flotta hluti með Unirea.
Dan Petrescu er að gera flotta hluti með Unirea. Mynd/AFP
Rúmeninn Dan Petrescu er einn af tuttugu umsækjendum um landsliðsþjálfarastöðu Skota en stjórn skoska knattspyrnusambandsins fundaði um framtíðarþjálfara landsliðsins í gær. Skotar ætla að vera búnir að ráða nýjan landsliðsþjálfara áður en dregið verður í riðla í undankeppni EM 2012 í febrúar á næsta ári.

Hinn 41 árs gamli Petrescu gerði Unirea óvænt að rúmenskum meisturum í fyrra og vakti mikla athygli í Skotlandi þegar hann stýrði Unirea-liðinu til sigurs á móti Rangers á Ibrox í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Petrescu hefur lýst því yfir að honum finnist staðan vera áhugaverð.

Dan Petrescu lék með ensku liðunum Sheffield Wednesday, Chelsea, Bradford City og Southampton frá 1994-2002 en mesta athygli vakti hann fyrir frammistöðuna hjá Chelsea þar sem hann spilaði 151 leik frá 1995-2000. Petrescu lék auk þess 95 landsleiki fyrir Rúmena frá 1989 til 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×