Fótbolti

Davíð sendir hjart­næma kveðju til Hareide

Valur Páll Eiríksson skrifar
Davíð Snorri var aðstoðarþjálfari Hareide í stjóratíð hans.
Davíð Snorri var aðstoðarþjálfari Hareide í stjóratíð hans. vísir/Anton

Davíð Snorri Jónasson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands í fótbolta, sem starfaði sem slíkur undir stjórn Norðmannsins Åge Hareide, minnist norsku goðsagnarinnar sem lést í kvöld.

Davíð Snorri var aðstoðarþjálfari Hareide í stjóratíð hans með íslenska liðið sem varði frá vormánuðum 2023 þar til Hareide sagði upp í nóvember í fyrra. Hann minnist mikils leiðtoga og vinar.

„Kæri vinur. Þetta er sorgardagur fyrir mig, leikmennina, starfsliðið, fótboltann og fyrst og fremst fjölskyldu þína,“ segir Davíð í kveðju á samfélagsmiðlinum Instagram.

Hareide lést í dag, 72 ára að aldri, eftir nokkurra mánaða baráttu við krabbamein í heila. Davíð rifjar upp sérlega góða minningu þeirra félaga.

„Það er aðeins eitt og hálft ár síðan að við stóðum saman á Wembley að fagna með strákunum okkar. Eftir á sagðir þú við mig með þínu stóra brosi: „Davíð, lofaðu mér einu, að vera ávallt þakklátur fyrir góðu augnablikin í lífinu og fótboltanum – vegna þess að oftast gerir þessi íþrótt þig geðveikan“,“ segir Davíð Snorri frá en einn stærsti sigurinn undir stjórn Norðmannsins var 1-0 sigur á Englandi á Wembley í aðdraganda EM 2024.

„Þetta er erfitt en ég mun gera það sem ég lofaði þér stjóri. Ég verð þakklátur fyrir að hafa þekkt þig, unnið með þér, öll samtölin, ráðin, ástríðuna, leiðtogahæfnina og til míns síðasta dags fyrir vinskapinn,“

„Frá öllum þínum íslensku vinum, eru hugsanir okkar og samúðarkveðjur hjá fjölskyldu þinni á þessum erfiða tíma,“ segir Davíð Snorri og bætir við:

„Sannur leiðtogi. Hvíl í friði, stjóri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×