Innlent

Magnús hættir í bankaráði Seðlabankans

„Þar sem störf mín hafa nú opinberlega verið tortryggð með ómaklegum hætti hef ég ákveðið að fara þess á leit við Alþingi að mér verði veitt lausn frá störfum sem bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands," segir Magnús Árni Skúlason, fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabankans, í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum.

Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að Magnús Árni hafði samband við útflutningsfyrirtæki til að koma á viðskiptum með gjaldeyri í gegnum breskt miðlunarfyrirtæki. Það hefur það í för með sér að útflutningstekjur í erlendum gjaldmiðli skila sér ekki á gjaldeyrismarkað hér á landi. Seðlabankinn hafði áður beðið fyrirtækin um að láta af slíkum viðskiptum meðan gjaldeyrishöft eru í landinu.

Magnús sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpssins að tilgangurinn hafi ekki verið að höndla með krónur. Þá kom fram að hann íhugaði að stefna Morgunblaðinu vegna fréttarinnar. Magnús minnist ekki á hugsanlega málsókn í yfirlýsingu sinni.


Tengdar fréttir

Vann gegn markmiðum Seðlabankans

Magnús Árni Skúlason, sem situr í bankaráði Seðlabanka Íslands fyrir hönd Framsóknarflokksins, hafði samband við stóran hluthafa í stoðtækjaframleiðandanum Össuri og starfsmenn lyfjafyrirtækisins Actavis með það fyrir augum að benda þeim á heppilegan miðlara með gjaldeyri erlendis. Áður hafði Seðlabankinn beðið fyrirtækin um að láta af slíkum viðskiptum. Þetta er fullyrt í Morgunblaðinu í dag.

Magnús segi sig úr bankaráði Seðlabankans

Hallur Magnússon, einn af forystumönnum Framsóknarflokksins í Reykjavík, vill að Magnús Árni Skúlason, fulltrúi flokksins í bankaráði Seðlabankans, segi af sér. Ekki sé hægt að kenna Framsóknarflokknum um mistök Magnúsar.

Engin viðbrögð frá Framsókn varðandi mál Magnúsar

Engin viðbrögð hafa borist frá forystu Framsóknarflokksins varðandi mál Magnúsar Árna Skúlasonar, fulltrúa flokksins í bankaráði Seðlabankans. Þeir þingmenn sem fréttastofa náði tali af vildu ekki tjá sig um málið.

Magnús íhugar að stefna Morgunblaðinu

Magnús Árni Skúlason, fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabankans, sem reyndi að koma íslenskum fyrirtækjum í aflandsviðskipti með gjaldeyri segir að tilgangurinn hafi ekki verið að höndla með krónur. Hann íhugar að stefna Morgunblaðinu vegna umfjöllunar um sig í dag. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×