Innlent

Brunuðu frá snjóflóðum á Óshlíð

MYND/Brynjar Gauti

Vegagerðin hefur lokað þremur vegum á Vestfjörðum eftir að snjóflóð hafa fallið á þá.

Fyrstu snjóflóðin féllu á um hádegisbil á veginn um Óshlíð. Þar var ökumaður á leið frá Bolungarvík til Ísafjarðar og ók hann fram á flóðið. Þegar hann sneri við féll annað flóð hinum megin við bílinn og lokaðist hann því inni á milli tveggja flóða.

Þriðja flóðið féll svo á bílinn hans en honum tókst að komast út. Það varð honum til happs að annar ökumaður kom aðvífandi og brunuðu þeir í burtu að sögn Önundar Jónssonar, yfirlögregluþjóns á Ísafirði.

Þá var veginum um Súðavíkurhllíð lokað nú í hádeginu eftir að snjóflóð féll þar á veginn. Enn fremur var veginum um Eyrarhlíð á milli Ísafjarðar og Hnífsdals lokað um eittleytið eftir að snjóflóð féll á veginn þar. Enginn var á ferðinni þegar flóðin féllu og lokaði lögregla vegunum strax í kjölfar þeirrra.

Að sögn Önundar er ómögulegt að segja til um það hvenær vegirnir verða opnaðir aftur. Fjögurra stiga hiti sé nú á Ísafirði sem þýði að snjórinn verði blautur og þungur og fari svo af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×