Vinstri grænir ítreka andstöðu sína við aðild Íslands að Evrópusambandinu og telja hagsmunum landsins best borgið utan sambandsins.
Þetta kemur fram í drögum að samþykkt, sem stjórn flokksins hefur lagt fram á auka flokksráðsfundi, sem stendur nú yfir á Grand hóteli í Reykjavík. Þar er þess krafist að boðað verði til kosninga.
Meðal aðgerða, sem Vinstri grænir vilja að ráðist verði í á næstunni, er að sett verði þak á hækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána, vaxtabætur verði hækkaðar, nauðungaruppboð verði stöðvuð næstu 2-3 mánuði hið minnsta, umtalsverðu viðbótarfjármagni verði strax veitt til sveitarfélaganna og að opinberum bönkum og lánastofnunum verði gert að styðja atvinnufyrirtæki gegnum yfirstandandi erfiðleika með skuldbreytingum, og rekstrar- eða endurfjármögnun.