Innlent

Spyr um nákvæman aðdraganda að skipan Þorsteins

Árni Mathiesen hefur sætt harðri gagnrýni fyrir dómaraskipan í Héraðsdómi Norðurlands eystra og Austurlands skömmu fyrir jjól.
Árni Mathiesen hefur sætt harðri gagnrýni fyrir dómaraskipan í Héraðsdómi Norðurlands eystra og Austurlands skömmu fyrir jjól. MYND/GVA

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri – grænna, fer fram á svör um nákvæman aðdraganda þess að Þorsteinn Davíðsson var skipaður héraðsdómari fyrir norðan og austan. Þeirri fyrirspurn er beint til Árna Mathiesen, setts dómsmálaráðherra í málinu..

Fram kom á Vísi fyrr í dag að Árni Þór hefði lagt fram spurningar til Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra varðandi skipanir héraðsdómara almennt og hvort fylgt hefði verið mati dómnefndar sem metur hæfi dómara.

Í fyrirspurninni nú spyr Árni nafna sinn fjármálaráðherra hvenær hann var settur til að gegna embætti dómsmálaráðherra við skipan héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands. Enn fremur hvenær hann hafi fengið málið til meðferðar og hvaða gögn hann hafi fengið til að byggja ákvörðun sína á.

Árni Þór vill einnig vita hvort settur dómsmálaráðherra aflaði sér nýrra gagna í málinu og hversu langan tíma málið var til meðferðar hjá honum og hvaða gögn séu því til staðfestingar. Þá spyr Árni hversu lengi málið hafi verið til meðferðar hjá dómnefndinni sem mat þrjá umsækjendur hæfari en Þorstein og hvenær umsækjendum var sent rökstutt álit dómnefndar um hæfni þeirra.

Enn fremur er spurt hversu langan tíma umsækjendur hafi til að bregðast við því með athugasemdum. Loks spyr þingmaðurinn hvort settur dómsmálaráðherra hafi leitað til meðmælenda einstakra umsækjenda og ef svo hafi verið hvenær það hafi verið gert. Þá er spurt hvaða áhrif sé talið að meðmæli hafi haft á ákvörðun ráðherrans.

Í greinargerð með spurningunum er vísað til þess að í svari við fyrirspurn í óundirbúnum fyrirspurnatíma þann 31. janúar hafi forsætisráðherra svarað því til að hann hefði ekki svör á reiðum höndum um einstakar tímasetningar varðandi málið. Ráðherra hafi hins vegar bent á að unnt væri að afla þeirra upplýsinga með formlegri fyrirspurn. Af því tilefni sé þessi fyrirspurn lögð fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×