Innlent

Hættir verslunarrekstri 98 ára gömul

„Líkaminn er búinn að gefast upp en ekki sálin," segir Jórunn Brynjólfsdóttir tæplega 98 ára kaupmaður í Reykjavík sem hættir nú verslunarrekstri eftir tæplega fjörutíu ára starf. Hún segist sátt við að hætta og hlakkar til að geta snúið sér að lestri góðra bóka á elliheimilinu Grund.

Jórunn Brynjólfsdóttir er fædd 1910 og hefur rekið eigin verslun í miðbænum í 15 ár þar sem hún hefur selt dúka og sængurföt. Hún hefur starfað við afgreiðslu í búðum og verið í verslunarrekstri í fjörutíu ár. Hún opnaði verslunina áttatíu og þriggja ára gömul af því að henni leiddist iðjuleysið. Síðustu 10 ár hefur hún búið á elliheimilinu Grund og ávallt tekið leigubíl í vinnuna. Nú hyggst Jórunn hætta verslunarrekstri á næstu dögum.

Jórunn er sátt og segist hafa fullt af minningum til að ylja sér við. Hún hlakkar til að takast á við næsta kafla í lífi sínu á elliheimilinu Grund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×