Innlent

Átakshópur um málefni miðborgarinnar

Ólafur F Magnússon borgarstjóri Reykjavíkur
Ólafur F Magnússon borgarstjóri Reykjavíkur

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarna daga varðandi umgengni og umhirðu miðborgarinnar, sem sýnir að almenningur lætur sér annt um hjarta Reykjavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg sem má sjá hér að neðan.

Aðgerða er þörf og hafa borgarstjóri og embættismenn borgarinnar sett saman aðgerðaráætlun til eflingar miðborgarinnar. Stofnaður verður átakshópur skipaður helstu embættismönnum borgarinnar sem koma að

þessum málum, auk slökkviðliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins. Ennfremur verður lögreglan kölluð til og fulltrúar hagsmunaaðila á borð við íbúasamtök og verslunareigendur.

Ráðgert er að hópurinn hittist ört og viðhafi skjót vinnubrögð til að bæta umhirðu í miðborginni, fjarlægja rusl og mála yfir veggjakrot. Ráðinn verður sérstakur verkefnisstjóri miðborgarmála á skrifstofu borgarstjóra. Með því móti verði tryggt að sífellt sé unnið að málefnum miðborgarinnar í náinni samvinnu við borgarstjóra og ætíð tekið mið af hagsmunum hennar við stefnumótun.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins hefur þegar hafið skráningu á öllum húsum í miðborginni sem eru mannlaus og hætta getur stafað af, í því skyni að bæta yfirsýn yfir umfang verkefnisins.

Viðtæk samvinna verður milli starfsmanna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, byggingafulltrúa og Framkvæmda- og

eignasviðs við að leysa úr ýmiss konar vanda vegna mannlausra húsa í borginni. Mun það byggja á tillögum sem samþykktar voru í borgarráði í morgun. Formaður skipulagsráðs hefur tekið málið markvisst á dagskrá ráðsins.

Sú góða vinna sem þar fer fram mun skila sér inn í vinnu átakshópsins. Þá mun skipulagsstjóri útfæra tillögu um sérstakt kjarnasvæði í miðborg Reykjavíkur þar sem gilda skuli ákveðnar og skýrar grunnreglur í skipulagi, umfram önnur svæði. Framkvæmda- og eignasvið er jafnframt að endurskoða allar reglur um þrif og umsýslu borgarlandsins og mun gera tillögur um það til umhverfisráðs.

Í gær hófust starfsmenn á Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar handa við að bæta ásýnd Laugavegarins, og munu 20 til 30 manns taka þátt í því verki næstu daga.

Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt í fegrun miðborgarinnar með borgaryfirvöldum til að gera góða borg enn betri og sýna miðborginni þann sóma sem hún á skilið. Vakin er athygli á ábendingarvefnum 1,2 og Reykjavík á heimasíðu Reykjavíkurborgar fyrir borgarbúa sem vilja koma ábendingum til Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×