Innlent

Átta mánaða fangelsisvist fyrir ítrekaðar árásir á fyrrverandi eiginkonu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í átta mánaða fangelsi, þar af fimm skilorðsbundna, fyrir ofbeldi gegn fyrrverandi eiginkonu sinni. Þá var hann dæmdur til að greiða henni 900 þúsund krónur í miskabætur.

Samkvæmt ákæru var um að ræða fjórar líkamsárásir á konuna og húsbrot á árunum 2005 og 2006. Var manninum meðal annars gefið að sök að hafa í eitt skiptið slegið konuna hnefahöggum í andlit, bak, axlir, hnakka og maga, rifið í hár hennar og sparkað í fætur hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgur og mar. Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa dregið hana á hárinu og slegið hana. Í hinum tveimur tilvikunum var hann ákærður fyrir að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili konunnar og gengið í skrokk á henni.

Maðurinn neitaði alfarið sök í málinu en út frá framburði konunnar og vitna var hann sakfelldur fyrir allar árásinar og húsbrotið. Segir í dómnum að brotin hafi verið niðurlægjandi fyrir hana og hafi einkennst af hrottaskap og ófyrirleitni. Þá voru þau til þess fallin að valda henni miklum ótta og andlegum raunum til frambúðar.

Þótti dómnum átta mánaða fangelsi hæfileg refsing en þar af eru fimm mánuðir skilorðsbundnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×