Innlent

Von á tillögum um uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. MYND/GVA

Von er á tillögum frá nefnd undir forystu Guðfinnu Bjarnadóttur alþingismanns um það hvort reisa eigi háskóla á Vestfjörðum eða fara aðrar leiðir í uppbyggingu háksólastarfs þar. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra í svari við fyrirspurn sem Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, beindi til hennar á Alþingi í morgun.

Kristinn benti á að það væri baráttumál allra stjórnmálaflokka að háskóli risi á Ísafirði en menntamálaráðherra hefði efasemdir í málinu. Sagði hann að nefnd væri að störfum til þess að fara yfir málið. Hún hefði átt að skila af sér fyrir allnokkru en ekkert hefði heyrst frá henni. Spurði hann því ráðherra hvað liði tillögum þessarar nefndar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti á að eindreginn vilji stjórnarflokkanna til þess að efla háskólanám á Vestfjörðum ehgfði oft komið fram. Það væri lykill að blómlegu atvinnulífi og samfélagi á Vestfjörðum. Sú nefnd sem færi yfir málið væri að leggja lokahönd á skýrslu sína og hún byndi vonir við tillögurnar væru raunhæfar, hvort sem þær sneru að byggingu háskóla, háskólaseturs eða samstarfi við aðra háskóla í landinu. 

Kristinn benti á að ráðherra hefði í svari sínu talað um að efla háskólanám en ekki byggja háskóla. Það væri kjarni málsins að það hefði verið ágreiningur við ráðherra því hann hefði staðið gegn háskólastofnun á Vestfjörðum.

Ráðherra sagðist ekki sjá ágreininginn en benti á að rammalöggjöf um háskóla hefði verið sett fyrir nokkrum misserum og allri skólar þyrftu að uppfylla hana, það yrði enginn afsláttur gefinn þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×