Innlent

Eldveggur ekki milli húsa sem brunnu í miðbænum

Eldveggur sem átti að vera á milli Austurstrætis 22 og Lækjargötu 2 var ekki til staðar þegar húsin brunnu til kaldra kola í apríl í fyrra. Þetta kemur fram í skýrslu Brunamálastofnunar sem birt er nú í hádeginu. Svo virðist sem veggurinn, þvert á allar brunavarnarkröfu, hafi verið rifinn niður og annar veikbyggðari settur í staðinn.

Mikið eignatjón varð í eldsvoðanum síðastliðið vor. Húsin við Austurstræti 22 og Lækjargötu 2 brunnu til kaldra kola en bæði voru þau byggð á fyrri hluta 19. aldar. Brunamálastofnun hefur látið gera skýrslu um eldsvoðann og verður hún kynnt á fundi slökkviliðsstjóra á Grand Hótel í Reykjavík nú í hádeginu.

Í skýrslunni er meðal annars fjallað um eldvarnir og eldvarnareftirlit í húsunum og mat lagt á slökkvistarf. Þar kemur meðal annars fram eldveggur sem átti að vera á milli húsanna reyndist við nánari skoðun ekki vera til staðar. Svo virðist sem hann hafi verið rifinn niður fyrir rúmum 30 árum og annar veikbyggðari veggur sem ekki stenst brunavarnakröfur settur í staðinn. Að mati skýrsluhöfunda varð þetta til þess að útbreiðsla eldsins varð jafn gríðarlega mikil og hröð eins og raun bar vitni.

Slökkviliðið fær þó góða einkunn í þrátt fyrir að slökkvistarf hafi verið flókið, eins og segir í skýrslunni, þar sem eldurinn hafi aðallega verið innan þilja og farið hratt yfir. Slökkvilið hafi komið fljótt á staðinn og vel hafi gengið að koma auknum mannafla og tækjabúnaði á staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×