Innlent

Rannsóknarnefnd flugslysa stýrir rannsókn á atviki á Dhaka-velli

Rannsóknarnefnd flugslysa á Íslandi hefur verið falið að stýra rannsókninni á því hvað fór úrskeiðis þegar eldur kom upp í hreyfli Boeing 747 flugvélar flugfélagsins Atlanta á flugvellinum í Dhaka í Bangladess í síðustu viku.

Að sögn Lárusar Atlasonar, forstöðumanns flugöryggissviðs Atlanta, sem staddur er í Bangladess vegna málsins, var það að ósk yfirvalda í Bangladess sem rannsóknarnefndin tók við stjórn rannsóknarinnar. Segir hann það ekki óalgengt að rannsóknir á flugatvikum séu fluttar yfir í landið þar sem flugvélin er skráð, en það á við um þessa vél sem Atlanta hafði leigt til Saudi Arabian Airlines.

Nærri 330 manns voru í vélinni þegar eldurinn blossaði upp en vélin var þá nýlent á flugvellinum. Var flugvélin rýmd af öryggisástæðum en engan sakaði í óhappinu.

Að sögn Lárusar beinist rannsóknin nú að eldsneytiskerfi vélarinnar en Lárus segist ekki geta gefið nánari upplýsingar um hana. Hann segir að rannsóknin á óhappinu geti tekið einhverja mánuði en vélin verður ekki notuð á næstunni. „Það eru töluverðar skemmdir á henni," segir Lárus aðspurður um ástand flugvélarinnar og segist enn fremur eiga von á því að flugfélagið sé tryggt fyrir tjóni sem þessu. Hann segir hins vegar ómögulegt að meta tjónið á þessari stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×