Innlent

Óttast ekki klíkustríð á Litla-Hrauni

Margrét Frímannsdóttir, fangelsisstjóri á Litla-Hrauni.
Margrét Frímannsdóttir, fangelsisstjóri á Litla-Hrauni. MYND/GVA

„Það er auðvitað kunningskapur á milli manna sem kannski koma inn og hafa lengi verið saman í afbrotum. En það er ekki þannig að hér séu einhver gengi,“ segir Margrét Frímannsdóttir, fangelsisstjóri á Litla-Hrauni.

Fangi var stunginn með útskurðarsporjárni á föstudaginn í verslun í fangelsinu. Þá komu fjórir menn inn þar sem þrír voru að versla og stungu einn fangann.

Í kjölfarið hafa komið upp sögur að innan veggja Litla-Hrauns séu að myndast klíkur. Margrét segist hins vegar ekki óttast að einhvers konar gengi séu að myndast innan veggja fangelsins og starfsfólk sem er inn á deildum hafi ekki orðið vart við það.

Hún segir að auðvitað séu erjur og skot á milli deilda enda sé þetta harður heimur. „Það hefur samt gengið mjög vel hjá okkur og hér er góður andi. Margir eru að taka sig á varðandi fíkniefnaneyslu og hér eru þrjár deildir sem hafa alveg haldlið sig frá fíkniefnum," segir Margrét og nefnir að yfir helmingur fanga á Litla-Hrauni vilji halda sig frá fíkniefnum.

Ekki liggur fyrir nein játning í málinu en lögreglan á Selfossi sér um rannsókn málsins. Aðspurð hvernig fangar geti orðið sér úti um útskurðarsporjárn innan veggja Litla-Hrauns segir Margrét að trésmíðaverkstæði sé í fangelsinu.

„Þar er heilmikið af verkfærum sem fara reyndar í merkta skápa á kvöldin. Þetta gerist hins vegar um miðjan dag en það er hér eins og annars staðar að á einhverjum tímapunkti er hægt að bera verkfæri á milli húsa," segir Margrét. Nú hafa verið settar reglur um að öll verkfæri séu númeruð og vinnustaðir séu ekki yfirgefnir á kvöldin fyrr en allt er komið á sinn stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×