Innlent

Alþingi kjósi ríkisendurskoðanda í stað forsætisnefndar

Sigurður Þórðarson er að hætta sem ríkisendurskoðandi svo það kemur til kasta Alþingis að velja nýjan á næstunni.
Sigurður Þórðarson er að hætta sem ríkisendurskoðandi svo það kemur til kasta Alþingis að velja nýjan á næstunni.

Tíu þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um Ríkisendurskoðun sem felur í sér að Alþingi kjósi ríkisendurskoðanda til sex ára í senn í stað þess að forsætisnefnd ráði hann.

Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að með þessu væri ráðning ríkisendurskoðanda færð til sama horfs og gilt hefur frá upphafi varðandi umboðsmann Alþingis.

Þegar Ríkisendurskoðun var flutt undir vald Alþingis með lögum árið 1986 var það í höndum þriggja forseta Alþingis að ráða ríkisendurskoðanda. egar lögum var breytt árið 1997 í samræmi sameiningu deilda Alþingis færðist ráðningarvaldið til forsætisnefndar Alþingis sem samanstendur af forseta Alþingis og varaforsetum þess.

Forseti Alþingis í raun einráður um ráðningu

Bent er á að samkvæmt 10. grein þingskapalaganna frá 1991 sker forseti úr ef ágreiningur verður í forsætisnefndinni. ,,Þetta þýðir að í raun er það vilji forseta sem ávallt ræður, því að þótt allir varaforsetar séu á einu máli dugir það ekki til ef ágreiningur er við forseta Alþingis," segir í greinargerðinni.

Enn fremur er bent á að ríkisendurskoðanda verði ekki vikið úr störfum nema með samþykki Alþingis rétt eins og gildir varðandi umboðsmann Alþingis. Verði að telja eðlilegt í ljósi þessa og í fullu samræmi við löggjöf um umboðsmann Alþingis að gera þá breytingu á lögunum um Ríkisendurskoðun að ríkisendurskoðandi verði kosinn af Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×