Innlent

Rafmagn komið á að nýju

MYND/Róbert

Rafmagn er nú loks komið á í Mosfellsbæ, Kjalarnesi, hluta Grafarvogs og í Grafarholti eftir rúmlega fjögurra klukkustunda rafmagnsleysi á þessum stöðum. Þetta staðfesti Helgi Pétursson hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Bilun varð í 132 kílóvatta aðalæð háspennu við Spöngina um hádegisbil í dag þegar Nesjavallalína sló út. Svo vildi til að verið var að vinna að viðhaldi á háspennustreng frá Geithálsi að tengivirkinu í Korpu og því var hann ekki tiltækur til þess að tengja framhjá biluninni og mynda þá hringtenginu sem alltaf er í kerfinu.

Á fjórða tug þúsunda búa á svæðinu og hefur fjöldi fyrirtækja orðið fyrir truflunum eða þurft að loka af völdum rafmagnsleysisins. Þannig hafði rafmagnsleysið áhrif á móttökustöð Sorpu í Gufunesi en henni var lokað vegna rafmagnsleysisins. 

Enn er ekki vitað hvers kyns bilun er á ferðinni en strengurinn er að hluta sæstrengur þar sem hann liggur yfir Elliðaárvoginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×