Innlent

Hefur efasemdir um aðskilnað tolls og lögreglu á Suðurnesjum

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur efasemdir um að það sé til góðs að greina milli tolls og lögreglu á Suðurnesjum eins og til stendur. Þetta kom fram í máli hans í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Lúðvík benti á að tilkynnt hefði verið fyrir um tveimur vikum að skilja ætti á milli lögreglu og tolls á Suðurnesjum, færa tollgæsluna undir fjármálaráðuneytið, flugvernd undir samgönguráðuneytið og þá yrði lögreglan áfram undir dómsmálaráðuneytinu.

Benti Lúðvík á samstarf lögreglu og tolls hefði gefist vel á Suðurnesjum og lögregluembættið hefði fengið viðurkenningar fyrir störf sín. Því væri mikilvægt að fara vel yfir hlutina áður en ráðist væri í breytingar. Þessi aðskilnaður kallaði hins vegar á breytingar á lögum og spurði hann fjármálaráðherra hvort til stæði að breyta lögum.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði um mikilvægt mál að ræða og að breytingunum fygldu breytingar á lögum sem myndu koma til kasta Alþingis. Benti fjármálaráðherra á að miklar breytingar hefðu orðið á Keflavíkurflugvelli á undanförnum misserum og lögregluembættinu á Suðurnesjum hefði að mörgu leyti gengið vel, þar á meðal í baráttunni við fíkniefnainnflutning.

Hins vegar væru fleiri ein ein leið til að gera góða hluti og hann ætti ekki von á öðru en að vel yrði staðið að undirbúningi á breytingum. Ef hann þekkti tollverði og lögreglumenn á Suðurnesjum rétt þá myndu þeir ekki láta breytingarnar spilla sínu góða starfi.

Lúðvík kom aftur í pontu og sagðist mikill efasemdarmaður um að greina ætti á milli tollsins og lögreglunnar. Ef röksemdir kæmu fram á Alþingi síðar meir þá áskildi hann sér rétt til að endurskoða hug sinn. Það yrði að vinna faglega að breytingunum á Suðurnesjum og minnti Lúðvík á að skammur tími væri eftir af þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×