Innlent

Rafmagnslaust til hálffjögur

MYND/Róbert

Reikna má með að rafmagnslaust verði í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og hluta Grafarvogs í Reykjavík til klukkan hálffjögur en rafmagn fór þar af um hálfeittleytið.

Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur að 132 kílóvatta strengur hafi bilað en svo vildi til að verið var að vinna að viðhaldi á háspennustreng frá Geithálsi að tengivirkinu í Korpu og því var hann ekki tiltækur til þess að tengja fram hjá biluninni. Verið er að vinna að þeirri tengingu sem gæti tekið að minnsta kost þrjár klukkustundir samkvæmt upplýsingum Landsnets.

Rafmagnsleysið er í lengra lagi og segir Helgi Pétursson hjá Orkuveitu Reykjavíkur að fjölmargir hafi haft samband til að forvitnast um hvað hafi gerst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×