Innlent

Vilja að Íslendingar beiti sér fyrir bættum mannréttindum í Kína

Hópur Íslendinga sem mótmælti ástandinu í Tíbet fyrir framan sendiráð Kínverja í dag vill að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að mannréttindi Tíbeta verði virt á alþjóðavettvangi. Þau benda á að hægt sé að fara að dæmi Þjóðverja og stöðva allar umræður við Kínverja um efnahagsþróun og viðskipti.

Einnig sé hægt að fara að dæmi Karls Bretaprins og sniðganga opnunarhátíð Ólympíuleikana eða fara að dæmi forsætisráðherra Póllands, Donalds Tusk, og bóka viðtal við Dalai Lama, í stað þess að fara á opnunarhátíðina.

Í ályktun frá hópnum segir að skoðanir sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Bjarni Benediktsson, formaður utanríkisnefndar Alþingis, hafi viðrað í vikunni um að þau væru hlynnt einu Kína mótist af einu viðskiptahagsmunum. Því spyr hópurinn utanríkisráðherra, Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Ólaf R. Grímsson forseta Íslands hvort þau styðji að mannréttindum sé fórnað fyrir viðskiptahagsmuni.

Þá spyr hópurinn hvort að það sé ný stefna íslenskra stjórnvalda að styðja ekki sjálfstæðisyfirlýsingar þjóða, samanber svohljóðandi yfirlýsingu frá Tævan og hvað íslensk stjórnvöld ætli að gera til að hjálpa Tíbetum í þeirra baráttu fyrir mannréttindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×