Innlent

Vilja 3,5 milljónir í bætur vegna umfjöllunar Kastljóss

Lucia Celeste Molina Sierra og Birnir Orri Pétursson vilja bætur frá Kastjósi vegna umfjöllunar um veitingu ríkisborgararéttar til Luciu.
Lucia Celeste Molina Sierra og Birnir Orri Pétursson vilja bætur frá Kastjósi vegna umfjöllunar um veitingu ríkisborgararéttar til Luciu. MYND/Valli

Sonur og tengdadóttir Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, fara fram á að útvarpsstjóri og fjórir úr ritstjórn Kastljóss greiði sér samtals 3,5 milljónir króna í miskabætur og verði dæmd fyrir ærumeiðingar vegna umfjöllunar um ríkisborgararétt tengdadótturinnar í Kastljósi.

Fyrirtaka var í meiðyrðamáli þeirra Birnis Orra Péturssonar og Luciu Celeste Molina Sierra á hendur fimmmenningunum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Páli Magnússyni útvarpsstjóra og Kastljósfólkinu Helga Seljan, Þórhalli Gunnarssyni, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og Sigmari Guðmundssyni er stefnt vegna málsins.

Kastljós fjallaði um það í lok apríl á síðasta ári að Lucia, sem er tengdadóttir Jónínu Bjartmarz, hefði fengið skjóta afgreiðslu á umsókn um ríkisborgararétt en Jónína sagðist ekki hafa komið nálægt afgreiðslu umsóknarinnar.

Í kjölfar umfjöllunarinnar ákváðu Lucia og Birnir að leita til dómstóla með málið þar sem þau telja vegið að æru sinni. Lucia gerir kröfu um 2,5 milljónir króna í miskabætur vegna umfjöllunarinnar en Birnir Orri vill eina milljón króna. Þá krefjast þau bæði þess að fimmenningarnir verði dæmdir fyrir ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs og er vísað til 228 og 229. greinar hegningarlaga í því sambandi.

Stefnt er að því að málflutningur í meiðyrðamálinu verði þann 18. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×