Innlent

Veðrið að ganga niður á höfuðborgarsvæðinu en bætir í vind annars staðar

Björgunarsveitamenn hafa haft í nógu að snúast í kvöld.
Björgunarsveitamenn hafa haft í nógu að snúast í kvöld.

Um 200 manns hafa unnið í allt kvöld að því að sinna verkefnum á höfuðborgarsvæðinu vegna veðurhamsins sem gengið hefur yfir. Hjá samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð fengust þær upplýsingar að veðrið eigi að fara að ganga niður og að tilkynningum vegna foktjóns hafi fækkað nokkuð. Hins vegar hafi tilkynningum vegna vatnstjóns fjölgað á sama tíma.

En um leið og veðrið gengur yfir höfuðborgasvæðið og Suðurnes versnar það á Vestfjörðum og spáð er ofsaveðri í Húnavatnssýslum í nótt. Þá er spáin slæm fyrir Austurland þegar líða tekur á nóttina.

Á Norðurlandi og Vestfjörðum er er töluverður viðbúnaður að hálfu lögreglu og björgunarsveita að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Starfsmenn almannavarnadeildarinnar fylgjast grannt með ástandi um allt land og hvetja alla til að huga vel að eigum sínum.

Áfram er  viðbúnaðarstig vegna snjóflóðahættu  á Vestfjörðum en ekki þótti ástæða til að rýma þar í kvöld.  Áfram verður fylgst með ástandinu og nýjar upplýsingar koma með morgninum.

Rafmagnstruflanir hafa orðið víða um landið. Vegna óveðursins er ljóst að millilanda- og innanlandssamgöngur hafa raskast.

Almannavarnadeildin vill benda ferðamönnum á að afla sér upplýsinga um færð á vegum á síðu Vegagerðarinnar, og um millilandaflugið  á www.textavarp.is  á bls.  420 og 421. Einnig er upplýsingar að finna á www.airport.is. Upplýsingar um innanlandsflug má finna á www.flugfelag.is .

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×